Þrátt fyrir að fyrstu þrír kostirnir í miðvarðarstöðunni hjá Liverpool séu frá þessa dagana segir Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri félagsins, ekki ljóst hvort að hann bæti leikmanni við hópinn í janúar.

Joel Matip meiddist á dögunum og kemur lítið við sögu í janúarmánuði. Miðjumaðurinn Fabinho mun því halda áfram að leysa stöðu miðvarðar ásamt varaskeifunum Nat Phillips og Rhys Williams.

Stuðningsmenn Liverpool vonuðust margir til þess að nýr miðvörður yrði fenginn til félagsins í janúar enda ljóst að Virgil van Dijk og Joe Gomez koma lítið sem ekkert við sögu það sem eftir lifir tímabils.

Þrátt fyrir fjarveru lykilleikmanna hefur Liverpool ekki fengið á sig mörg mörk að undanförnu og segist Klopp ekki vera viss hvort að peningurinn sé til staðar til að bæta miðverði við leikmannahópinn.

„Sem betur fer höfum við náð að halda sjó fjárhagslega í þessum heimsfaraldri en það er ekki komið að því að geta kastað peningum frá sér. Allaveganna ekki í okkar tilfelli, ég veit ekki hvernig staðan er hjá öðrum félögum. Við þurfum að fara varlega og ég veit ekki hvort að við getum bætt við leikmanni,“ sagði Klopp í samtali við SkySports, aðspurður hvort að nauðsyn væri að bæta við leikmannahópinn í janúar.