Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að hann teldi að meiðsli Sadio Mané sem urðu til þess að hann fór af velli í fyrri hálfleik í sigri liðsins gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í gær séu ekki alvarleg.

Japanski sóknartengiliðurinn Takumi Minamino leysti Mané af hólmi í leiknum en það voru Jordan Henderson og Roberto Firmino sem tryggðu Liverpool sigurinn. Liverpool náði 16 stiga forskoti með sigrinum en liðið hefur halað inn 67 stigum af 69 stigum í deildinni á yfistandandi leiktíð.

„Það er synd að Mané þyrfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla sinna. Vonandi er þetta ekki mjög alvarlegt. Ég held að þetta sé bara smávægileg tognun en það kemur betur í ljós eftir skoðun á morgun [í dag]," sagði Klopp í samtali við Skysports.

Næsti leikur Liverpool er á móti Shrewsbury Town í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar en sá leikur fer fram á sunnudaginn kemur. Ólíklegt er að Mané muni spila þann leik en næsti deildarleikur Liverpool er á móti West Ham United á miðvikudaginn kemur.