Jürgen Klopp sem stýrði á dögunum Liverpool til sigur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla skrifaði opið bréf til stuðningsmanna liðsins sem birtist í staðarblaðinu Liverpool Echo í dag.

Um leið og Klopp þakkaði þeim fyrir magnaðan stuðning sinn í gegnum tíðina og sagði stundina sem nú er að líða vera sameiginlega gleðistund allra í Liverpool samfélaginu ítrekaði hann bón sína til þeirra um að virða tilmæli breskra stjórnvalda um bann við samkomum.

„Ég er mannvera eins og þið og ég skil fullkomlega ástríðu ykkar. Ég deili þessari ástríðu með ykkur á þessari frábæru tímum sem við erum að upplifa hjá Liverpool. Það er hins vegar afar mikilvægt við virðum tilmæli um að hópast ekki saman og höldum fjarlægðartakmarkanir í heiðri næstu vikurnar," segir Klopp í bréfi sínu.

Borgarstjórn Liverpool borgar, lögregluyfirvöld þar í borg og stuðningsmannafélag Liverpool sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu um helgina þar sem sú háttsemi stuðningsmanna Liverpool að koma saman og fagna Englandsmeistaratitli liðsins í síðustu viku var fordæmd.

„Þeir sem standa höllustum fæti í samfélaginu, heilbrigðisstarfsmenn og lögreglumenn eiga það skilið að við gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hindra útbreiðslu veirunnar. Vinsamlegast fagnið titlinum í heimahúsum og í fámennum hópum. Þegar tækifærið er rétt munum við svo fagna þessu almennilega," segir Þjóðverjinn enn fremur í bréfinu.