Charlie Adam, fyrrum leikmaður Liverpool, segir knattspyrnustjóra liðsins, Jurgen Klopp, hafa verið aðeins of tryggan við suma leikmenn undanfarin ár.

Eftir ótrúleg ár undir stjórn Klopp, þar sem Liverpool vann meðal annars ensku úrvalsdeildina og Meistaradeild Evrópu, virðist sem svo að liðið sé á niður leið.

Meistaradeildarsætið er í hættu heima fyrir og í gær féll liðið úr leik í 16-liða úrslitum keppninnar eftir samanlagt 6-2 tap fyrir Real Madrid.

„Ég held að hann hafi sýnt þessum leikmönnum aðeins of mikla tryggð, sérstaklega þegar þú horfir til þess sem Pep Guardiola hefur gert hjá Manchester City með leikmenn eins og Joao Cancelo. Hann losar sig við leikmenn til að fá nýja inn,“ segir Adam, sem var á mála hjá Liverpool frá 2011-2012, áður en Klopp tók við.

„Aftur á móti held ég að sem þjálfari þurfir þú að virða það sem leikmenn hafa gert fyrir þig. Þetta eru ákvarðanir sem starfsliðið þarf að taka.“

Liverpool er sex stigum frá fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem, eins og frægt er, veitir þátttökurétt í Meistaradeildinni.

Ekki er ólíklegt að einhvers konar enduruppbygging þurfi að eiga sér stað á Anfield í sumar. Þá skiptir öllu að geta boðið leikmönnum sem hugsanlega á að kaupa upp á að spila í Meistaradeildinni.