Jur­gen Klopp, þjálfari Liver­pool, var vægast sagt ó­sáttur í upp­hitun leiks Liver­pool og Leeds United í ensku úr­valds­deildinni í kvöld. Á­stæðan voru mót­mæla­treyjur liðs­manna Leeds þar sem ofur­deildinni svo­kölluðu og á­formum Liver­pool var mót­mælt. Myndir af treyjunum má sjá neðst í fréttinni.

Á treyjum Leedsarana stóð stórum stöfum, í ís­lenskri þýðingu: „Þú verður að vinna þér inn fyrir því“ og þá fylgdi með merki Meistara­deildar Evrópu. Deildin sú er enda í hættu ef fyrir­ætlanir liðanna tólf, um sér­staka ofur­deild tuttugu Evrópuliða verður að veru­leika.

Á aftari hlið treyjanna stóð ein­fald­lega „Fót­boltinn er fyrir að­dá­endur.“ Jur­gen Klopp lét það sjálfur út úr sér árið 2019 að hann væri al­farið á móti fyriráætlunum um sérstaka elítuofurdeild Evrópu.

Hann var því ekkert sér­lega hrifinn af upp­hitunar­treyjum Leedsara. „En ef ein­hver heldur að hann þurfi að minna okkur á að við þurfum að „vinna okkur inn fyrir því“ til að komast í Meistara­deildina, þá er það al­gjör brandari og gerir mig reiðan,“ segir Klopparinn.

„Ef þetta var hug­mynd Leeds, þá takk fyrir kær­lega, það þarf enginn að minna okkur á þetta,“ segir hann. Klopp segir að hann og leik­menn liðsins hafi komist að fyrir­ætlunum stjórnar Liver­pool á sama tíma og allir aðrir.

„Skoðun mín hefur ekkert breyst. Ég heyrði af þessu í fyrsta sinn í gær á meðan við vorum að undir­búa okkur undir erfiðan leik gegn Leeds United,“ segir hann.

Leikmenn Leeds United sendu Liverpool og hinum fimm liðunum pillu.
Fréttablaðið/Getty
Ian Poveda, sáttur á svip í sérstakri æfingartreyju tileinkuðum aðdáendum fótboltans.
Fréttablaðið/Getty
Liðsmennirnir voru allir sem einn í sömu treyjunni.
Fréttablaðið/Getty