Íslenska U-21 árs landsliðið í karlaflokki mætir Tékklandi í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í lokakeppni EM á föstudag. Leikið er í Víkinni, áður en strákarnir halda svo út til Tékklands í seinni leikinn, sem verður spilaður fjórum dögum síðar. Ljóst er að um krefjandi verkefni er að ræða.

Orri Steinn Óskarsson, leikmaður Íslands, hefur mikla trú á liðinu fyrir einvígið gegn Tékkum. Hann gerir sér þó grein fyrir að andstæðingurinn er sterkur.

„Þetta verða tveir góðir leikir á móti sterku tékknesku liði. Við förum bara í þetta til að vinna og komast á EM,“ segir Orri.„Mér finnst við eiga mjög fína möguleika. Við erum með mjög sterkt lið og trúum á okkar eiginleika. Við getum gert allt sem við viljum ef við stöndum saman.“

Orri segir liðið ekki ætla að breyta út af vananum í komandi leikjum. „Við leggjum upp með að pressa stíft, eins og við höfum gert, halda vel í boltann og þá gerast hlutirnir.“

Frá æfingu u-21 árs landsliðsins í gær
©Anton Brink 2022

Veit að hann hefur það sem þarf

Orri er leikmaður FC Kaupmannahafnar í Danmörku. Eftir að hafa farið á kostum með yngri liðum félagsins er þessi 18 ára gamli leikmaður farinn að banka fast á dyrnar hjá aðalliðinu og farinn að fá tækifæri þar

„Það hefur gengið ágætlega, mikið upp og niður en það er bara partur af fótboltanum. Maður þarf að nýta sénsana þegar maður fær þá,“ segir Orri um hvernig þróunin frá U-19 ára liði félagsins og upp í aðalliðið gangi.

Orri á æfingu með FCK
Fréttablaðið/GettyImages

„Ég finn að þjálfarinn hefur trú á mér og það vita allir í klúbbnum hvað ég get. Ég hef sýnt það á yngra stigi og nú er bara komið að því að sýna það á meistaraflokksstigi.“

Orri kom við sögu í stórleik FCK gegn Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni á dögunum. Nokkrum dögum áður var hann í hópi aðalliðsins gegn Sevilla í Meistaradeild Evrópu, þar sem hann kom að vísu ekki við sögu.

„Ég treysti bara á að vera settur inn á gegn City. Það væri fínt,“ segir Orri og hlær, en auk Sevilla er FCK einnig með Borussia Dortmund og Englandsmeisturum Manchester City í riðli í Meistaradeildinni.

Leið Hákonar innblástur

Hákon Arnar Haraldsson er einnig á mála hjá FCK. Hann er ári eldri en Orri. Það er einmitt um það bil ár síðan Hákon braut sér leið úr yngri liðum Kaupmannahafnarstórveldisins og upp í aðalliðið. Nú er hann fastamaður þar.

„Það er alltaf hægt að taka Hákon til fyrirmyndar. Hann hefur gert frábærlega og er orðinn lykilmaður í liðinu. Það er mikið hægt að horfa til hans og hvernig hann gerði þetta og læra af því,“ segir Orri.

Íslendingasveitin í FCK. Andri Fannar (lengst til hægri) er hins vegar farinn til Hollands núna
Fréttablaðið/GettyImages

Systir Orra er Emelía Óskarsdóttir. Hún leikur með Kristianstad í Svíþjóð. Það tekur um tvær klukkustundir að keyra eða taka lest frá Kaupmannahöfn til Kristianstad. Það er þó hægara sagt en gert að gera sér ferð þarna á milli í þeirra stöðu.

„Það er takmarkaður tími sem gefst til að hitta hana. Við erum bæði að spila atvinnumannafótbolta. En við hvert tækifæri sem gefst reynir maður að hitta á hana“ segir Orri.

Elskar lífið í Kaupmannahöfn

Orri elskar að vera atvinnumaður í Kaupmannahöfn. Ekki skemmir fyrir að hafa áðurnefndan Hákon og Ísak Bergmann Jóhannesson með sér hjá FCK og í borginni.

„Það er frábært. Ég held það sé ekkert betra í heiminum. Þetta er geggjuð borg og svo er maður með tvo Íslendinga sem eru alltaf með manni. Að vera með þeim á hverjum degi er frábært og hjálpar mér mjög mikið.“

Þó að Orri sé aðeins að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokksfótbolta með FCK kemur fyrir að fólk þekki hann á götum úti.„Það fer eftir hvar ég er í Kaupmannahöfn. Nálægt vellinum og niðri í bæ er mikið af fólki sem þekkir mig, líka Hákon og Ísak. En ef maður fer á Bröndby-svæðið þá er ekki alveg tekið eins vel á móti manni,“ segir Orri léttur, en FCK og Bröndy eru miklir erkifjendur.

Faðir Orra er Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks. Liðið er í frábærri stöðu í Bestu deildinni og er langlíklegasta liðið til að hreppa Íslandsmeistaratitilinn um þessar mundir.„Ég er alltaf stoltur af honum, hann á þetta fyllilega skilið. Ég hef fulla trú á að þeir geti klárað þetta,“ segir Orri Steinn Óskarsson, leikmaður FC Kaupmannahafnar og íslenska U-21 árs landsliðsins.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks er faðir Orra
GettyImages