Fimm íranskar konur neyddust til þess að klæðast karlmannsfötum ásamt því að setja upp hárkollu og gerviskegg til þess að komast á leik í írönsku deildinni á dögunum.

Er konum óheimilt að mæta á kappsleiki karla þar í landi en þessar konur voru tilbúnar til að þykjast vera karlmenn til þess að komast inn á leik Persepolis og Sepidrood Rasht.

Birti fjölmiðlamaðurinn Sobhan Hassanvand myndband frá þessu á Twitter-síðu sinni sem sjá má hér neðst en 35 konur voru handteknar á leik Persepolis á dögunum.

Reyndi forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins (e. FIFA), Gianni Infantino, að ræða við forseta Íran í heimsókn sinni á dögunum um að hleypa konum inn á leiki en engin ákvörðun hefur verið tekin.