Knattspyrnusamband Englands tilkynnti í dag að Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins, myndi líkt og fyrirliðar níu annarra evrópskra þjóða á HM, klæðast regnbogalituðu fyrirliðabandi á HM í Katar síðar á þessu ári.

Verkefnið er að sögn enska knattspyrnusambandsins samstarfsverkefni sem var unnið í sameiningu við knattspyrnusambönd í Hollandi, Belgíu, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð, Sviss og Wales.

Með því vilja knattspyrnusamböndin styðja við bakið á öllum þeim sem verða fyrir misrétti og fordómum innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Alþjóðaknattspyrnusambandið og mótshaldarar í Katar hafa verið gagnrýndir vegna viðhorfa Katars til samkynhneigðar.

Nasser al-Khater, yfirmaður skipulagsnefndar HM í Katar, fullyrti árið 2019 að það yrðu allir boðnir velkomnir til Katar en biðlaði til fólks um leið að virða hefðirnar í landinu.