KKÍ vonast til þess að geta hafið leik á ný í byrjun næsta árs eftir að ljóst varð að ekki væri hægt að hefja æfingar á næstu dögum.

Ríkisstjórnin ákvað í dag að framlengja sóttvarnarreglum sem hafa verið í gildi í tvo mánuði sem leggja bann við æfingum og keppnisleikjum fullorðinna.

Bannið gildir í viku að hið minnsta í viðbót og er því ljóst að fyrstu æfingarnar geti farið fram 9. desember ef leyfi fæst fyrir æfingum.

KKÍ tók því sama skref og HSÍ fyrr í dag og frestaði öllum leikjum fram yfir áramót.

Tilkynningu mótastjóra KKÍ má lesa hér fyrir neðan.

Í ljósi ákvörðunar heilbrigðisráðherra um framlengingu sóttvarnarráðstafana til 9. desember er öruggt að ekki verður keppt frekar í körfubolta 2020. Vonir standa til að keppni geti hafist snemma í janúar, en framhaldið ræðst algjörlega af stöðu faraldursins og þeim takmörkunum sem gilda hverju sinni.

Skrifstofa KKÍ vinnur að breyttu leikjadagatali, sem verður kynnt félögunum seinna í desember.