Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, staðfesti í samtali við Fréttablaðið í dag að FIBA hafi veitt Íslendingum undanþágu til þess að leikur liðsins gegn Hollandi í undankeppni HM 2023 geti farið fram í Ólafssal í ljósi þess að Laugardalshöll verður ekki leikfær í tæka tíð.

Leikurinn mun fara fram á Ásvöllum í Ólafssal líkt og leikur Íslands gegn Ítalíu fyrr í undankeppninni.

KKÍ þurfti að treysta á að FIBA myndi veita Íslendingum undanþágu fyrir leikina mikilvægu í júlí eða eiga í hættu á að þurfa að leika heimaleiki sína erlendis.

Hannes kveðst vera vongóður um að leikir liðsins sem fari fram undir lok sumars geti farið fram í Laugardalshöll og um leið sé KKÍ að bíða frekari tíðinda frá ráðherra íþróttamála á næstu dögum.

„FIBA sýnir okkur og stöðunni ágætist skilning og treysir því eins og við að ríkisstjórnin sé á leið í þetta verkefni þar sem þetta er í stjórnarsáttmála og ráðamenn hafa gefið það sterkt út undanfarið að þetta verði klárað,“ sagði Hannes í samtali við Fréttablaðið í dag.

„Við fengum því aftur undanþágu ofan á undanþágu fyrir leikinn mikilvæga á móti á Hollandi 1. júlí nk. Við erum FIBA afar þakklát fyrir skilninginn og góð samtöl síðustu daga og mánuði vegna stöðunnar.“