Forráðamenn KKÍ hafa tilkynnt Alþjóðakörfuknattleikssambandinu að það sé ekki áhugi fyrir því að leika gegn Rússum í undankeppni HM 2022 eins og til stóð í sumar.

Ísland er í riðli með Hollandi, Ítalíu og Rússlandi og á eftir leiki gegn Hollandi og Rússlandi á heimavelli.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, fundaði með FIBA í vikunni þar sem hann sagði að KKÍ hefði aðeins lagt upp með að það væri einn leikur í júlí í viðræðum við FIBA.

„Við höfum gefið það skýrt út að við viljum ekki spila við Rússland eins og staðan er í dag. Það hafa fleiri lönd gert eins og Holland og Ítalía sem eru með okkur í riðli í undankeppni HM karla. Við t.d. gerum ekki ráð fyrir leiknum í okkar plönum og þeim gögnum sem við höfum sent á FIBA fyrir leikinn við Holland þá höfum við ekkert sent vegna leiksins við Rússland sem fyrirhugaður var 4 .júlí,“ sagði Hannes í samtali við Fréttablaðið í dag.

„Við höfum sagt það skýrt að við gerum bara ráð fyrir einum leik hjá okkur í þessum glugga en ekki tveim. Við bíðum því enn formlegrar tilkynningar frá FIBA um að leikir Rússa fari ekki fram í júlí og þá að þátttöku þeirra í þessari undankeppni HM sé lokið. “