Kjaftstopp. Ég held að það sé engin betri leið til að lýsa viðbrögðunum eftir leikinn betur en þannig. Þjálfaratíð Eriks Hamrén með íslenska landsliðið hófst með martröð á Kypunpark-vellinum í St. Gallen á laugardaginn þegar heimamenn niðurlægðu Ísland í 6-0 sigri í fyrstu umferð Þjóðadeildar UEFA. Allt sem gat farið úrskeiðis í leiknum virtist gera það og voru landsliðsmennirnir ef til vill örlítið heppnir að ekki fór verr, það voru sem dæmi tvö mörk dæmd af Sviss í leiknum vegna rangstöðu.

Allar flóðgáttir opnar

Hamrén ákvað að tefla fram leikkerfinu 4-4-2 og lenti Ísland í stökustu vandræðum með leikkerfi Svisslendinga, 4-2-3-1, þar sem þeir nýttu vel aukamanninn á miðjunni. Þeir voru hreyfanlegir og færðu Íslendinga til svo það myndi opnast fyrir liðsfélaga þeirra; það virtist alltaf vera maður laus til að gefa á. Þá voru Svisslendingar duglegir að opna pláss á köntunum fyrir sína öflugu bakverði sem tóku drjúgan þátt í sóknarleiknum.

Tvö mörk frá Steven Zuber og Denis Zakaria í fyrri hálfleik þýddi að Ísland var strax komið í brekku þegar gengið var til búningsklefa. Xherdan Shaqiri bætti við marki í upphafi seinni hálfleiks úr aukaspyrnu og við það virtist allt loft fara úr blöðru Íslands. Á sama tíma efldist lið Sviss og bætti við þremur mörkum, Haris Seferovic komst á blað eftir snyrtileg uppspil áður en Albian Ajeti og Admir Mehmedi skoruðu keimlík mörk.

Sjá einnig: Þetta var óásættanleg frammistaða í Sviss

Aðspurður sagði Shaqiri að leikmenn Sviss hefðu rætt síðasta leik liðanna, 4-4 jafntefli þar sem Ísland kom til baka úr stöðunni 1-4, og rætt um að taka fótinn aldrei af bensíngjöfinni. 

„Ég mun aldrei gleyma þeim leik, það var magnað hjá Íslandi og við ræddum það í hálfleik að slaka ekki á. Við vitum hvað Íslendingar geta, þeir eru með gott lið en voru án nokkurra lykilmanna og áttu ekki sinn besta dag í dag. Af okkar hálfu var þetta fullkominn leikur og þegar við spilum svona er erfitt að eiga við okkur.“

Létum þá líta vel út

Það var niðurlútur Erik Hamrén sem mætti á blaðamannafund eftir leik og byrjaði hann á að biðjast afsökunar. 

„Ég vil bara byrja á að biðja Íslendinga afsökunar á þessari frammistöðu. Við þurftum að eiga góða frammistöðu til að eiga möguleika gegn virkilega góðu liði en spilamennskan var afskaplega léleg. Þeir léku vel en okkur tókst sérstaklega vel að láta þá líta vel út,“ sagði Hamrén og hélt áfram:

„Þegar þeir skoruðu þriðja markið úr aukaspyrnunni í upphafi seinni hálfleiks, þá fór allt til fjandans. Við misstum allt skipulag, misstum trúna og í raun allt bara. Það er mín ábyrgð sem þjálfari að fá leikmennina til að trúa á sig á ný eftir að hafa lent 0-3 undir.“

Það er ljóst að spjótin beinast að einhverju leyti að Hamrén strax, þetta var ein slakasta frammistaða liðsins í mörg ár. Strax heyrðust raddir á samfélagsmiðlum um að það ætti að reka hann en honum til varnar fékk hann stuttan tíma og var liðið án fimm leikmanna sem hefðu líklegast byrjað þennan leik.

Vantaði hálft liðið

Fyrirliðinn og afmælisbarnið á leikdeginum, Gylfi Þór Sigurðsson, var skiljanlega niðurlútur í leikslok.

„Þetta var mjög döpur frammistaða. Það vantar hálft liðið og eins erfitt og það er að segja það, þá er hópurinn okkar ekki það stór að við getum mætt jafn sterku liði án fimm leikmanna sem myndu byrja og sækja úrslit.“