Kjartan Atli Kjartansson og Bragi Páll Sigurðarson gefa nú út aðra bókina sem fjalla um þau Lóu og Börk. Þessi ber heitið „Langskot í lífsháska.“
Kjartan hafði áður gefið út bókina „Saman í liði.“ Bragi hjálpaði honum við gerð þeirrar bókar.
Kjartan mætti í íþróttavikuna hjá Benna Bó að ræða nýju bókina.
Hann talaði um að hann og Bragi væru mjög ólíkir en hentuðu vel saman.
„Ég sagði að ef við myndum selja fimm þúsund eintök eða eitthvað svona galið myndi ég kaupa mér pallbíl. Hann sagði það sama nema að hann ætlaði að kaupa sér rafmangshlaupahjól, þannig við erum svolítið á sitt hvorum ásnum,“ segir Kjartan léttur.
„Það sem sameinar okkur er áhugi á körfubolta.“
Kjartan segir þessa bók enn betri en þá fyrstu.
„Hún gekk vel og þessi er betri. Það er meiri dýpt og spilað meira á tilfinningarnar.
Sú saga var bara ein lína. Hérna eru nokkrir söguþræðir í gangi í einu. Hún er byggð á dagbókum Lóu og Barkar, sem upplifa hlutina á mismunandi hátt.“