Aga- og úrskurðarnefnd knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, hefur úrskurðað Kjartan Henry Finnbogason, leikmann KR, og Þórð Ingason, leikmann Víkings, hvorn um sig í þriggja leikja bann.

Bannið fá þeir fyrir hegðun sína á lokaandartökum í leik liðanna á Meistaravöllum á sunnuadagskvöldið og hefja þeir þar af leiðandi næstu leiktíð í leikbanni.

Áður hafði legið fyrir að þeir yrðu ekki með liðum sínum í lokaumferð Pepsi Max-deildarinnar á yfirstandandi leiktíð en Víkingur getur þar orðið Íslandsmeistari í fyrsta skipti síðan árið 1991 og KR er í harðri baráttu um Evrópusæti á næsta keppnistímabili.

Kári Árnason, fyrirliði Víkings, verður einnig í leikbanni í lokaumferðinni þegar Víkingar fá Leikni í heimsókn í Fossvoginn vegna fjögurra áminninga. Það sama á við um KR-ingana Finn Tómas Pálmason og Kennie Chopart sem verða ekki með þegar KR sækir Stjörnuna heim.

Björn Berg Bryde verður ekki með Stjörnumönnum í þeim leik vegna leikbanns. Patrick Pederson verður ekki með Valsmönnum gegn Fylki og Fylkismennirnir, sem eru fallnir, munu sakna Ragnars Braga Sveinssonar og Þórðar Gunnars Hafþórssonar.

Gísli Eyjólfsson, sem leikur með Breiðabliki, verður svo í leikbanni þegar Blikar mæta HK í nágrannaslag en Breiðablik á enn möguleika á að verða Íslandsmeistari. Þar taka HK-ingarnir Ívar Örn Jónsson og Birnir Snær Ingason út leikbann.