Það hefur vakið mikla athygli síðustu vikur að Rúnar Kristinsson þjálfari KR virðist hafa misst alla trú á Kjartani Henry Finnbogasyni framherja liðsins. Kjartan sem er einn öflugasti sóknarmaður deildarinnar hefur lítið fengið að spila síðustu vikur.

Um helgina ákvað Rúnar svo að taka þennan öfluga sóknarmann út úr leikmannahópi KR. Kjartan sat þess í stað í stúkunni þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Víking í Bestu deildinni.

„Ég er auðvitað bara leiður og hissa, þetta er komið hringinn," segir Kjartan í samtali við Fréttablaðið. „Ég er búin að byrja sjö leiki í sumar og skora fjögur mörk, síðan hefur bara orðið algjör viðsnúningur á þessu öllu og ég hef engar skýringar á því. Það hefur enginn talað við mig, ekki sagt neitt við mig. Hvorki þjálfari eða aðrir, þeir geta alveg sagt að ég eigi ekki skilið neina sérstaka skýringu á því frekar en einhver annar. Þeir mega nálgast hlutina á þann þátt."

Kjartan er hissa á því að þjálfarateymið hafi ekki rætt málið við sig. „Persónulega hefði ég haldið að það væri heiðarlegt og hreinskilið að að eiga eitthvað samtal um þetta, það væri vænlegra til árangurs.“

Kjartan kom meiddur inn í tímabilið en hefur náð bata. „Ég var aðeins meiddur í vetur og vann ótrúlega mikið í því, bæði sjálfur og með aðstoð að utan. Álagsmeiðsli sem komu eftir COVID, skrýtið undirbúningstímabil fyrir okkur KR-inga. Við vorum að æfa út um allt í vetur, ég ætla ekki að rekja það.“

GettyImages

Það er einhver ástæða:

Kjartan segir það ljóst að einhver ástæða sé fyrir þessum miklu breytingum, hann var lykilmaður í plönum Rúnars framan af móti en síðan þá hefur orðið breyting. „Það er öllum ljóst að það er einhver ástæða fyrir þessum 180 gráðum. Það alltaf ástæða fyrir öllu, hvort ástæðan sé ákvæði í samningum eða ég hafi verið svona ógeðslega lélegur. Ég hefði haldið að hreinskilið samtal og eðlileg mannleg samskipti væru vænlegur kostur," segir Kjartan um stöðuna.

Kjartan vill ítreka það að málið snúist ekki um það að hann telji sig eiga að spila alla leiki frá byrjun. „Ég vil mest að það komi fram að þetta snýst í grunninn ekki um það að ég eigi skilið að spila alltaf 90 mínútur eða byrja alla leiki. Það er alls ekki þannig, ég er ekki á leið í atvinnumennsku eða sanna mig til að komast í landsliðið. Ég er í grunninn ógeðslega mikill KR-ingur, ég hef verið í KR frá því ég var fjögurra ára. Það er búið að selja mig tvisvar frá klúbbnum og maður er að koma heim og er sjálfur með börn í KR. Maður hefði vonast til þess að hlutverkið yrði öðruvísi en það er ekki ég sem stjórna því. Ég tel mig vera með ágætis reynslu og ég hefði haldið að það gæti gagnast ungum KR-ingum. Ég vil bara hjálpa til.“

Hættir ekki á forsendum annara:

Kjartan er með samning við KR út næstu leiktíð og ætlar ekki að hætta á forsendum annara. „Það er búið að blaðra um ákvæðið, ég ætla ekki að tala um það hvernig samningurinn minn er uppsettur. Ef það á að bola mér út, þá er það bara þannig. Við sjáum hvað gerist eftir tímabilið, það gagnast ekki að rekja þetta í fjölmiðlum. Ég vil að KR gangi vel, Sigurður Bjartur Hallsson er geggjaður. Hann var okkar besti maður á undirbúningstímabilinu og hann er framtíðin, ég hefði viljað hjálpa honum meira innan vallar en ég er bara í kuldanum.“

Kjartan segir það af og frá að eitthvað hafi gerst í samskiptum sínum við Rúnar og hans teymi. „Alls ekki neitt, ég skil vel að fólk haldi það og spyrji sig. Ég hef ekki fengið að heyra neitt, ég veit ekki. Það var þessi 180 gráðu snúningur eftir leikinn úti í Póllandi. Síðan þá hef ég ekki spilað mikið, um helgina var svo annar skellur. Að ég sé ekki að standa mig á æfingum er fjarri lagi, þetta er olían á eldinn hjá mér. Ég er í hörkustandi og fínu formi. Allar tölur sanna það," segir Kjartan.

„Ég ætla að spila fótbolta, ég ætla ekki að hætta á forsendum annara. Ég ætla ekki að láta annan mann taka þá ákvörðun fyrir mig, ég tel mig hafa helling fram að færa í hvaða formi sem það er. Ég held að það sé best í stjórnun, sama hvort það sé í fyrirtæki eða fótbolta að vera heiðarlegir og tala saman. Ég held mínu striki áfram og mæti á æfingar, svo sjáum við hvað gerist eftir tímabilið. Ég peppa strákana og mun aldrei láta neitt svona bitna á þeim, aldrei.“