Hafnaboltakappanum Justin Turner var kippt af velli í miðjum leik í World Series gegn Tampa Bay Rays eftir kom í ljós að hann væri smitaður af COVID-19.

Þetta var sjötti leikur Los Angeles Dodgers og Rays og tókst Dodgers að vinna einvígið 4-2. Dodgers vann því sinn fyrsta titil í 32 ár.

Í áttundu lotu (e. eight inning) var Turner sem leikur fyrir Dodgers kippt af velli. Hann var ekki upp á sitt besta og var tvisvar kastaður út (e. strikeout) í leiknum.

Eftir leikinn greindi framkvæmdarstjóri MLB, Rob Manfred, frá því að Turner hefði greinst með COVID-19.

Sýni sem var tekið úr Turner á mánudaginn þótti óskýrt en sýni sem tekið var fyrir leikinn í nótt staðfesti að hann væri smitaður.

Turner staðfesti fréttirnar á Twitter síðu sinni eftir leik en sagðist vera einkennalaus og í skýjunum með sigurinn.

Líkt og í öðrum íþróttum í Bandaríkjunum fór úrslitakeppnin fram í búbblu í Texas. Þetta var fyrsta tilfellið af COVID-19 smiti hjá leikmanni síðan úrslitakeppnin hófst.

Það kom ekki í veg fyrir að Turner fengi mynd af sér með bikarnum og sat hann einn fremstur á mynd með liðsfélögum sínum og bikarnum í leikslok.