Ólympíunefnd Kína hefur boðist til að útvega bóluefni gegn COVID-19 fyrir íþróttamenn sem koma til með að keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó nú í sumar og á Vetrarólympíuleikunum í Peking á næsta ári en þetta kom fram á fundi Alþjóðaólympíunefndarinnar, IOC, fyrr í dag.

Forseti nefndarinnar, Thomas Bach, greindi frá því í kjölfarið að IOC kæmi til með að borga fyrir skammtana sem færu til íþróttamanna á Ólympíuleikunum og Ólympíuleikum fatlaðra. Þá sagði Bach að fyrir hvern skammt til íþróttamanna myndi nefndin borga fyrir tvo skammta til viðbótar fyrir viðkomandi þjóðir.

Ólympíuleikarnir í Tókýó áttu að fara fram síðasta sumar en var frestað vegna heimsfaraldurs COVID-19. Þrátt fyrir að faraldurinn sé enn skæður fullyrti Bach í gær að Ólympíleikarnir komi til með að hefjast 23. júlí næstkomandi. Vetrarólympíuleikarnir eru síðan á áætlun í febrúar.

Ýmislegt sem þarf að skoða

Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að enn eigi eftir að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni og í hverju boð Kínverja felst.

„Þetta er eitthvað sem við eigum eftir að fá frekari upplýsingar um, en við munum klárlega skoða þetta,“ segir Andri og bætir við að þau eigi enn eftir að fá formlegan texta frá IOC vegna málsins. „Við bíðum bara og sjáum.“

„Allt sem er til að bæta heilsu íþróttafólksins og fyrirbyggja er bara jákvætt, en á sama tíma vill íþróttahreyfingin ekki vera að troðast fram fyrir í röð, það eru margir aðrir hópar sem eru í meiri forgangi og við virðum það.“