Hinn ódauðlegi Kazuyoshi Miura bætti aldursmet japönsku deildarinnar í gær þegar hann varð elsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar til að byrja leik.

Kazuyoshi sem er yfirleitt kallaður King Kazu í heimalandinu byrjaði í 3-2 tapi Yokohama FC gegn Kawasaki Frontale.

Með því bætti Kazu metið sem aldursforseti deildarinnar um rúm átta ár og er ólíklegt að það verði bætt.

Undanfarin tólf ár hefur hann leikið með Yokohama í næst efstu deild japönsku deildarkeppninnar en fór upp með liðinu á síðasta tímabili.

Knattspyrnuferillinn Kazu hófst árið 1986 í Brasilíu þar sem ekki var til staðar atvinnumannadeild í Japan.

Hefur Kazuyoshi sjálfur haft orð á því að hann ætli sér að vera enn að þegar hann fagnar sextugsafmæli sínu.

Þrjú ár eru liðin síðan Kazuyoshi bætti met Sir Stanley Matthews sem elsti atvinnumaður heims, þá rúmlega fimmtugur.