Rússneski bardagakappinn Khabib Nurmagomedov segist ekki hafa áhuga á því að mæta Conor McGregor aftur inn í UFC-búrinu.

Khabib hafði betur gegn Conor þegar Írinn játaði sig sigraðan í fjórðu lotu. Það var fyrsti bardagi Conors í tvö ár en hann er kominn af stað á ný eftir eins og hálfs árs fjarveru og barðist í fyrsta sinn í langan tíma á dögunum.

Orðrómur heyrðist um að auðjöfrar í Sádi Arabíu væru tilbúnir að greiða Conor og Khabib hundrað milljónir dollara fyrir bardaga þar í landi og var Khabib spurður út í möguleikann á öðrum bardaga af blaðamönnum í Dagestan.

Þá gaf Khabib til kynna að hann hefði ekki áhuga á að mæta Conor aftur og sagði að það væri hægt að gera margt skynsamlegra fyrir peninginn.

„Afhverju ætti ég að þurfa á þessum peningi að halda? Að gefa mér hundrað milljónir fyrir að berja þetta fífl aftur? Það er ekki rökrétt,“ sagði Khabib og ítrekaði að hann hefði engan áhuga á að mæta Conor aftur: „Alls engann.“

Hann er þessa dagana að undirbúa sig fyrir bardaga gegn Tony Ferguson.