Fyrir tæpu ári síðan gekk framherjinn Romelu Lukaku á ný til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea. Kaupverðið var talið vera 98 milljónir punda en Lukaku hafði verið á mála hjá Inter Milan frá því í ágúst árið 2019.

Lukaku hafði áður verið á mála hjá Chelsea á árunum 2011-2014 og miklar vonir voru bundnar við endurkomu hans á Stamford Bridge. Hann hafði slegið í gegn hjá Inter Milan áður, skorað 64 mörk í 95 leikjum og hjálpað liðinu að vera ítalskur meistari tímabilið 2020/21.

Hann fór vel af stað í endurkomunni, skoraði 3 mörk í fyrstu þremur leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og allt leit út fyrir að Chelsea væri búið að finna sinn mann í fremstu víglínu. Það tók hins vegar fljótt að halla undan fæti hjá Lukaku og meiðsli undir lok októbermánaðar settu stein í götu hans hjá félaginu.

Varð ósáttur mjög fljótt

Lukaku vann sig úr meiðslunum enn undir lok síðasta árs birtist afar umdeilt viðtal við hann þar sem hann ýjaði að því að vilja endurnýja kynni sín við Inter Milan. Þetta sagði hann aðeins fjórum mánuðum eftir að hafa verið keyptur á tæpar 100 milljónir punda til Chelsea og skrifað undir fimm ára samning við félagið.

Þessi stóri og stæðilegi framherji sagðist ekki vera nægilega ánægður hjá Chelsea, leikkerfi knattspyrnustjórans Thomas Tuchel væri ekki að henta honum nægilega vel. ,,Ég er ekki sáttur við stöðuna en það er best að segja ekki nákvæmlega hvernig mér líður þessa stundina. Þrátt fyrir að hafa sagt skilið við Inter Milan í sumar elska ég félagið og get alveg séð mig fara þangað aftur," segir Lukaku um stöðu sinna mála hjá Chelsea.

Þetta umrædda viðtal við Lukaku vakti mikla athygli og setti strik í reikninginn hjá Chelsea. Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri liðsins var ekki parsáttur með framkomu framherjans en það tókst hins vegar að hreinsa andrúmsloftið þeirra á milli. Lukaku endaði á því að spila 44 leiki fyrir Chelsea á síðasta tímabili og skora 15 mörk.

Á útleið

En nú eftir aðeins ár í herbúðum Chelsea virðist Lukaku aftur á leið til Inter Milan. Daily Mail greinir frá því að framherjinn hafi fundað með knattspyrnustjóra ítalska félagsins, Simone Inzaghi þar sem að hann bað um að snúa aftur til Mílanó. Búist er við því að gengið verði frá lánssamningi milli Inter og Chelsea á næstunni.

Lukaku er mjög nálægt því að snúa aftur til Inter Milan sem mun þurfa að reiða fram 6-8,5 milljónir punda til þess að koma lánssamningnum í gegn.

Það er klárt mál að þetta er það sem Lukaku vill. Ítalska pressan er farin að greina frá því að Lukaku hafi tekið forrystuna í þessu máli og ekki einu sinni rætt við umboðsmann sinn um fyrirætlun sína. Lukaku hringdi í Inzaghi fyrir tveimur mánuðum síðan og tjáði honum hug sinn.