Kevin-Prince Boateng hefur gert nýjan samning við Hertha Berlin, ári eftir að hafa snúið til félagsins sem hann ólst upp hjá. Boateng og Hertha fóru ansi frumlega leið að því að tilkynna nýjan samning hans.

Boateng fékk Hakiki kiosk, vinsæla skyndibitakeðju í Berlín, til liðs við sig og gaf 2023 kebab-pítur. Er þetta í tilefni að því að hann skrifi undir til ársins 2023. Hertha birti myndband af Boateng þar sem hann var að störfum í kebab-vagni. Með myndbandinu stóð: „Eruði enn svöng?“

Þessi 35 ára gamli miðjumaður hefur á ferli sínum leikið fyrir félög á borð við AC Milan, Barcelona, Borussia Dortmund, Tottenham og Portsmouth.

Hertha rétt slapp við fall á síðustu leiktíð. Liðið bjargaði sér frá falli í úrslitaleik við B-deildarlið Hamburg í síðasta mánuði.