Í kvöld ræðst hvaða þjóð fær síðasta sætið á HM í Katar, fimm mánuðum fyrir opnunarleikinn þegar Kosta Ríka og Nýja-Sjáland mætast í úrslitaleik í Doha, Katar.

Í gær tókst Áströlum að vinna óvæntan sigur á Perú sem þýðir að Eyjaálfa verður að minnsta kosti með einn fulltrúa á HM í vetur.

Leikurinn fer fram á Ahmed bin Ali vellinum í Katar, einum af leikvöngunum sem verða notaðir á HM í vetur og hefst klukkan 21:00 að staðartíma eða sex að íslenskum tíma.

Sigurvegari leiksins fer í E-riðil þar sem Spánverjar, Þjóðverjar og Japanir bíða eftir tíðindum af fjórða liði riðilsins.

Nýja-Sjáland hefur einu sinni komist í lokakeppni HM, árið 2010 en Kosta Ríka hefur verið meðal þátttökuþjóða í fjögur af síðustu fimm skiptum á HM.