Jökull Andrésson leikur á lánssamningi hjá Exeter City í ensku D-deildinni í knattspyrnu karla. Jökull, sem er samningsbundinn Reading, hefur gengið til liðs við Exeter City tvisvar á tímabilinu en í fyrra skiptið kom hann á neyðarláni og í það seinna samdi markvörðurinn við félagið til loka þessa tímabils. Jökull lék sinn fyrsta aðalliðsleik á ferlinum þegar hann spilaði fyrir Exeter City.

Þessi nítján ára gamli Mosfellingur spilaði einnig tvo leiki með Morecambe, sem spilar sömuleiðis í D-deildinni, á sjö daga neyðarláni fyrr í vetur. Jökull, sem er uppalinn hjá Aftureldingu, hélt hreinu í þeim leikjum þar sem Morecambe fór með sigur af hólmi. Hann hefur nú samtals leikið fimmtán leiki með Exeter City í deildar- og bikarkeppnum á yfirstandandi leiktíð.

Var í hálfan sólarhring á ferðalagi fyrir fyrsta leik

„Þetta tímabil hefur verið sannkölluð rússíbanareið. Það var búið að ákveða það í upphafi leiktíðarinnar að ég færi á lán til þess að fá reynslu af fullorðinsfótbolta. Það gekk illa að finna lið í upphafi tímabilsins af ýmsum ástæðum og ég var orðinn frekar óþolinmóður að finna lið til þess að spila með.

Svo vorum við á leið í leikjatörn rétt hjá Manchester í lok október og eftir fimm tíma rútuferð þangað þá kemur markmannsþjálfarinn hjá Reading til mín á hótelinu og segir mér að ég eigi að spila fyrir Exeter City á neyðarláni daginn eftir.

Þá var ekkert annað að gera en að skella sér í lestina þangað og eftir sex tíma lestarferð mætti ég til Exeter City á leikdegi bara. Ég var frekar svangur eftir ferðalagið og þeir fundu fyrir mig beikonklúbbsamloku og súkkulaðistykki til þess að hlaða í mig orku fyrir leikinn.

Þetta var ekki ákjósanlegasti undirbúningurinn fyrir fyrsta leik með aðalliði en leikurinn gekk hins vegar glimrandi vel og seinna á tímabilinu vildu þeir semja við mig til loka leiktíðarinnar,“ segir Jökull um frumraun sína.

Kominn tími á að spila fullorðins fótbolta

„Það er frábært að vera kominn með nokkra leiki undir beltið í deild og bikar og það er líka góð tilfinning að komast út úr akademíu-umhverfinu þar sem helsta markmiðið er framþróun leikmanna til lengri tíma.

Mér líður mjög vel hjá Reading og ég hef bætt mig mikið sem leikmaður þar. Ég fann það samt síðasta haust að ég var tæknilega, líkamlega og andlega klár í að taka skrefið í átt að því að spila leiki þar sem meira er undir.

Það er geggjað að spila fyrir lið í deildarkeppni þar sem hver leikur skiptir máli og það er mjög gaman hversu vel hefur gengið bæði hjá mér og liðinu það sem af er. Við erum í harðri baráttu um að komast upp um deild og stemmingin hjá liðinu er stórkostleg,“ segir hann.

Jökull hefur átt góðu gengi að fagna með nýja liðinu sínu en hann var í gær valinn leikmaður febrúarmánaðar af stuðningsmönnum Exeter í könnun á vegum félagsins. Exeter City gerði markalaust jafntefli við Walsall í deildarleik á þriðjudagskvöldið síðastliðið og hefur eftir þann leik 47 stig og situr í níunda sæti deildarinnar.

Exeter City er tveimur stigum á eftir Salford City, sem situr í neðsta sætinu, sem veitir þátttökurétt í umspili um laust sæti í C-deildinni á næstu leiktíð eins og sakir standa. Þá er Exeter City þremur stigum frá Bolton Wanderers sem eru í sjötta sæti deildarinnar.

Glímdi við kvíða á unglingsaldri

„Mér fannst ég andlega klár í þann slag að spila fyrir aðallið og ég held að það hafi í raun bara hjálpað mér að hafa þurft að takast á við kvíða sem ég byrjaði að finna fyrir þegar við fluttum út til Englands. Það voru mikil viðbrigði að flytja í nýtt land og ég var fremur kvíðinn fyrstu mánuðina.

Eftir góða vinnu með frábærum sálfræðingi hef ég lært að láta kvíðann ekki trufla mig í að gera það sem ég elska mest, það er að spila fótbolta. Nú veit ég vel að þó að ég geri mistök inni á vellinum þá er ekki hundrað í hættunni.

Ég er ekki hræddur um að mér mistakist og ég er með mikið sjálfstraust. Ég er að spila vel þessa stundina og nú er bara stefnan að halda áfram að bæta mig. Langtímamarkmiðið hjá mér er svo að verða aðalmarkvörður Reading á næstu árum.

Íslenska U-21 árs landsliðið er á leið í lokakeppni Evrópumótsins í lok þessa mánaðar. Jökull sem á að baki fjóra leiki fyrir yngri landslið Íslands kemur sterklega til greina í þann hóp og svo í það landslið sem gengur í gegnum kynslóðaskipti eftir það mót.