Michael Masi, fyrrum keppnisstjóri Formúlu 1 hefur ákveðið að láta af störfum fyrir Alþjóða aksturssambandið (FIA) og flytja heim til Ástralíu til þess að vera nær fjölskyldu sinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FIA.

Masi var færður til í starfi innan FIA eftir afar umdeilda lokakeppni síðasta tímabils í Formúlu 1 þar sem úrslitin í heimsmeistarakeppni ökumanna réðust og Max Verstappen tryggði sér sinn fyrsta heimsmeistaratitil sem ökumaður með því að taka fram úr Sir Lewis Hamilton á lokahring keppninnar.

Ákvörðun Masi þess efnis að leyfa hringuðum bílum að afhringa sig undir lok lokakeppninnar í Abu Dhabi á bak við öryggisbíl olli miklum deilum og eftir nokkurra mánaða rannsókn var niðurstaðan sú Masi var látinn taka poka sinn.

Niels Wittich og Eduardo Freitas tóku við stöðu Masis sem var færður í annað starf innan FIA.

FIA kemur því á framfæri í fréttatilkynningu um starfslok Masi að hann hafi í gegnum allan þennan tíma hagað starfi sínu á fagmannlegan hátt en að hann vildi nú snúa sér að öðru.

Masi tók við starfi keppnisstjóra Formúlu 1 í upphafi 2019 tímabilsins eftir að Charlie Whiting, þáverandi keppnisstjóri féll skyndilega frá.

Hvað gerðist í Abu Dhabi?

Mercedes sendi frá sér yfirlýsingu eftir kappaksturinn í Abu Dhabi. Þar sagði liðið að það hefði í hyggju að áfrýja niðurstöðu keppnisdómara Formúlu 1 eftir kappaksturinn í Abu Dhabi.

Forráðamenn Mercedes höfðu átt fund með ráðsmönnum Formúlu 1 þar sem að þeir mótmæltu ákvörðun keppnisdómara og að þeim hafi fundist tvær reglugerðir hafa verið brotnar í ákvörðun keppnisstjóra Formúlunnar um að leyfa hringuðum bílum að afhringa sig undir lok keppninnar á bak við öryggisbíl.

Hringuðum bílum fyrir aftan öryggisbílinn hafði verið skipað að halda sig fyrir aftan öryggisbílinn þar sem að þeir voru staðsettir á milli Hamilton sem var í fyrsta sæti og Verstappen sem var í öðru sæti.

Keppnisstjórnendur ákváðu hins vegar að breyta ákvörðun sinni og leyfðu þeim bílum sem voru hring á eftir forystusauðunum að afhringa sig. Frá þeirri stundu varð ljóst að Hamilton ætti erfitt uppdráttar þar sem að Verstappen var á mun betri dekkjagangi. Svo fór að hann tók framúr Hamilton og tryggði sér sigur í stigakeppni ökumanna. Mótmæli Mercedes voru ekki tekin gild.