Formúlu 1 lið Mercedes er sagt hafa gert samkomulag við FIA þess efnis að liðið myndi hætta við áfrýjun sína gagnvart úrslitum Abu Dhabi kappakstursins, gegn því að Michael Masi, keppnisstjóri Formúlu 1 yrði látinn taka pokann sinn.

Þetta herma heimildirBBC en hávær orðrómur er uppi um það núna að FIA muni tilkynna um starfslok Masi þegar rannsókn sambandsins á því hvað gekk á í Abu Dhabi, er lokið. Niðurstöður rannsóknarinnar munu liggja fyrir í síðasta lagi þann 3. febrúar næstkomandi.

Michael Masi, keppnisstjóri Formúlu 1
GettyImages

Abu Dhabi kappaksturinn, síðasti kappakstur síðasta keppnistímabils, réði úrslitum í stigakeppni ökumanna í Formúlu 1. Max Verstappen tryggði sér sinn fyrsta heimsmeistaratitil eftir að hafa tekið fram úr Sir Lewis Hamilton á síðasta hring keppninnar eftir aðdraganda sem hefur valdið miklum deilum og Michael Masi, keppnisstjóri FIA, átti mikinn þátt í.

Mercedes hætti við að áfrýja úrslitum kappakstursins á sínum tíma en neitar að hafa gert slíkt samkomulag við FIA.

Hátt settir einstaklingar í kringum Formúlu 1 hafa sagt við BBC Sport að þeir sjái ekki hvernig Michael Masi geti haldið áfram sem keppnisstjóri Formúlu 1. Hins vegar benda sömu aðilar á að það sé enginn augljós arftaki Masi eins og staðan sé núna.

Stutt er í næsta tímabi. Æfingar á nýrri kynslóð Formúlu 1 bíla hefjast 23. febrúar næstkomandi, fyrsta keppnishelgi tímabilsins fer síðan fram í Bahrain 18-20 mars.

Hamilton og Verstappen háðu mikla baráttu á síðasta tímabili í Formúlu 1
GettyImages

Starfslok Masi tryggi áframhaldandi veru Hamilton

Lítið hefur verið gefið upp um framtíð Sir Lewis Hamilton, ökumanns Mercedes, í Formúlu 1 eftir vonbrigði síðasta tímabils. Hamilton hefur ekkert tjáð sig opinberlega eftir síðasta kappaksturinn í fyrra ef undanskilin eru stutt viðtöl strax eftir keppni.

Hamilton skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Mercedes á síðasta ári, samningur sem gildir út tímabilið 2023. Samkvæmt BBC er það líklegasta útkoman að FIA grípi til aðgerða sem greiði fyrir endurkomu Hamilton á næsta tímabili. Aðgerða á borð við að koma binda enda á tíð Michael Masis sem keppnisstjóra FIA.

Hvað gerðist?

Mercedes sendi frá sér yfirlýsingu eftir kappaksturinn í Abu Dhabi. Þar sagði liðið að það hefði í hyggju að áfrýja niðurstöðu ráðsmanna Formúlu 1 eftir kappaksturinn í Abu Dhabi.

Forráðamenn Mercedes höfðu átt fund með ráðsmönnum Formúlu 1 þar sem að þeir mótmæltu ákvörðun ráðsmanna og að þeim hafi fundist tvær reglugerðir hafa verið brotnar í ákvörðun keppnisstjóra Formúlunnar um að leyfa hringuðum bílum að afhringa sig undir lok keppninnar á bak við öryggisbíl.

Hringuðum bílum fyrir aftan öryggisbílinn hafði verið skipað að halda sig fyrir aftan öryggisbílinn þar sem að þeir voru staðsettir á milli Hamilton sem var í fyrsta sæti og Verstappen sem var í öðru sæti.

Keppnisstjórnendur ákváðu hins vegar að breyta ákvörðun sinni og leyfðu þeim bílum sem voru hring á eftir forystusauðunum að afhringa sig. Frá þeirri stundu varð ljóst að Hamilton ætti erfitt uppdráttar þar sem að Verstappen var á mun betri dekkjagangi. Svo fór að hann tók framúr Hamilton og tryggði sér sigur í stigakeppni ökumanna. Mótmæli Mercedes voru ekki tekin gild.