Sundkappinn og ólympíumeistarinn Evgeny Rylov verður meðal þátttakenda á rússneska meistaramótinu í sundi sem hófst í dag, þrátt fyrir að Alþjóðasundsambandið hafi dæmt Rylov í níu mánaða bann á dögunum.

Rylov var hluti af hernaðarsýningu til heiðurs Vladimír Pútín ásamt nokkrum af skærustu íþróttastjörnum Rússlands, tæpum mánuði eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst.

Alþjóðasundsambandið dæmdi hann í níu mánaða keppnisbann fyrir helgi fyrir að sýna Pútín og innrás Rússa í Úkraínu stuðning. Með því hafi Rylov vegið að heiðri íþróttagreinarinnar.

Styrktaraðilar Rylov hafa slitið samstarfi við rússneska sundkappann sem vann til tveggja gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Tókýó á síðasta ári.