Við­vera maka leik­manna þýska karla­lands­liðsins á liðs­hóteli lands­liðsins í Katar eru sögð hafa haft slæm á­hrif á and­rúms­loftið í lands­liðinu og átt sinn þátt í slæmu gengi liðsins sem féll úr leik í riðla­keppni mótsins.

Þýski vef­miðillinn Bild greinir frá því að á tveggja tíma krísu­fundi for­ráða­manna þýska knatt­spyrnu­sam­bandsins með lands­liðs­þjálfara­t­eymi karla­lands­liðs sam­bandsins hafi hegðun vina og fjöl­skyldu­með­lima leik­manna lands­liðsins á liðs­hótelinu verið nefnd sem ein á­stæðan á bak við slæmt gengi liðsins á HM í Katar.

Stemningin sem hafi myndast á liðs­hóteli lands­liðsins hafi haft það yfir­bragð yfir sér að um frí væri að ræða fremur en keppni á HM í knatt­spyrnu og að það hafi valdið leik­mönnum ó­noti.

Hegðun kvennanna á liðs­hótelinu hafi valdið vanda­málum. Þær hafi eytt tíma í að taka af sér sjálfur við sund­laugina og leik­menn á meðan verið með börn sín.

Eftir jafn­tefli Þýska­lands gegn Spán­verjum í annarri um­ferð riðla­keppninnar var unnustum leik­manna boðið að gista á liðs­hótelinu fyrir loka­leik liðsins í riðla­keppninni.

Unnusturnar fengu leyfi til þess að dvelja í tvær nætur á hótelinu en dvöl þeirra virðist hafa farið öfugt ofan í nokkra úr starfs­liði lands­liðsins.

Hansi Flick, lands­liðs­þjálfari Þýska­lands er sagður ekki hafa verið hrifinn af þeirri hug­mynd að fjöl­skyldu­með­limir fengu að vera á liðs­hóteli lands­liðsins sem var stað­sett um 111 kíló­metra frá Doha.