Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mun á morgun, föstudag, mæta Írlandi í vináttulandsleik en leikurinn verður sá fyrri af tveimur vináttulandsleikjum liðanna. Liðin eigast við á nýjan leik á þriðjudaginn kemur.

Leikirnir eru liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir undankeppni HM 2023 sem hefst næsta haust. Einn leikmanna íslenska liðsins sem kemur með blússandi sjálfstraust inn í þessi landsliðsverkefni er Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.

Karólína Lea varð um síðustu helgi þýskur meistari með Bayern München en hún gekk til liðs við stórveldið frá Breiðabliki fyrr á þessu ári.

„Það var algerlega frábært að vera hluti af liði sem varð þýskur meistari á mínu fyrsta tímabili þar í landi.

Ég er reyndar frekar jarðbundin manneskja að eðlisfari þannig að ég fór ekki alla leið upp í skýin þó að þessum titli hafi að sjálfsögðu verið fagnað vel og innilega,“ segir Karólína Lea um upplifun sína af því að vinna þessa sterku deild.

„Þegar ég kom til Bayern München var ég meidd á hné og fyrsta mánuðinn var ég bara í endurhæfingu vegna þeirra meiðsla. Upphaflega var gert ráð fyrir að ég kæmi meira inn í liðið á næsta tímabili.

Ég fékk tækifæri eftir að hafa jafnað mig af meiðslunum og mínúturnar voru í raun fleiri en ég átti von á, sem er bara mjög jákvætt,“ segir hún.

„Ég var mest að spila inni á miðjunni og það tók smá tíma að venjast tempóinu á æfingum og í leikjum. Bayern München spilar þannig leikstíl að áherslan er á að halda boltanum innan liðsins og sækja hratt þegar færi gefst. Eftir nokkrar vikur var ég komin á gott ról og ég er á fínum stað núna,“ segir sóknartengiliðurinn.

„Það var líka erfitt fyrst að búa ein í Þýskalandi og það var alveg krefjandi andlega að geta ekki fengið fleiri heimsóknir að heiman út af kórónaveirufaraldrinum.

Það var því mikilvægt fyrir að mig að fá mömmu út núna í vor og það var gríðarlega þýðingarmikið fyrir mig að geta fagnað titlinum með henni,“ segir Karólína Lea.

„Daginn eftir leik voru leikmenn Bayern München farnir hingað og þangað í landsliðsverkefni og nú er einbeitingin hjá mér bara á komandi verkefni með landsliðinu.

Við vorum ánægð með leikina við Ítalíu og nú er bara að bæta leik okkar enn frekar í komandi leikjum,“ segir hún um komandi leiki við Íra sem fram fara á Laugardalsvellinum.