Valur hefur þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar fyrir lokaumferð riðlakeppninnar í kvöld. Liðið er í þriðja sæti með 9 stig sem stendur en gæti einnig hafnað í öðru eða fjórða sæti. Það fer eftir því hvernig leikirnir í umferðinni fara.

Andstæðingur Vals í kvöld, Ystad, er með 11 stig og vann fyrri leik liðanna með þremur mörkum. Íslandsmeistararnir þurfa að vinna með þremur mörkum eða meira í kvöld til að ná öðru sætinu af Ystad, en heildarmarkatala liðsins er betri en hjá þeim sænsku.

Ferencvaros er í fjórða sæti með 8 stig. Liðið mætir toppliði Flensburg í kvöld og þarf á sigri að halda, sem og að treysta á tap Vals, til að ná þriðja sætinu.

Valur er í B-riðli og mæta efstu fjögur liðin þar efstu fjórum liðum A-riðils í 16-liða úrslitum. Efsta sæti í öðrum riðlinum mætir því fjórða í hinum og svo framvegis.

Valur mætir Kadetten frá Sviss ef liðið landar öðru sætinu með þriggja marka sigri eða meira á Ystad í kvöld. Hafni Valsarar í fjórða sæti verður andstæðingurinn að öllum líkindum Montpellier, sem er svo gott sem öruggt með sigur í A-riðli.

Leikur Ysad og Vals hefst klukkan 17:45 að íslenskum tíma.

Staðan í A-riðli
1. Montpellier - 16 stig (305:268)
2. Goppingen - 14 stig (296-249)
3. Kadetten - 12 stig (281-269)
4. Benfica - 6 stig (262-263)
5. Presov - 4 stig (249-281)
6. Veszprem KKFT - 2 stig (256-319)

Staðan í B-riðli
1. Flensburg - 16 stig (300-253)
2. Ystad - 11 stig (284-281)
3. Valur - 9 stig (303-295)
4. Ferencvaros - 8 stig (291-301)
5. PAUC - 6 stig (266-284)
6. Benidorm - 4 stig (266-296)