Dregið verður í dag í umspil um fjögur laus sæti í lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu karla. Ísland er í potti A í drættinum en fyrst verður dregið um það hvort íslenska liðið mætir Rúmeníu eða Ungverjalandi í undanúrslitum umspilsins.

Auk þess liðs sem mætir ekki Íslandi í undanúrslitunum koma Búlgaría og Ísrael til greina sem mögulegir andstæðingar í úrslitaleiknum um laust sæti í lokakeppninni.

Rúmenía er hærra skrifað sé litið til styrkleikalista FIFA en þar situr liðið í 29. sæti eins og sakir standa. Rúmenar höfnuðu í fjórða sæti í F-riðli undankeppninnar en Spánn og Svíþjóð fóru beint áfram úr þeim riðli og Lars Lägerback og lærisveinar hans hjá Noregi voru í sætinu fyrir ofan Rúmeníu.

Claudiu Keserü sem mætti Val með búlgarska liðinu Ludogorets í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í sumar var markahæsti leikmaður Rúmeníu í undankeppninni en hann skoraði sex mörk.

Rúmenía fékk mörg mörk á sig en Ungverjaland skoraði lítið

George Puscas­ sem leikur með enska ­B-deildarliðinu Reading skoraði einu marki minna en Keserü. Keserü er markahæsti leikmaðurinn í núverandi leikmannahópi Rúmena með 13 mörk fyrir liðið en Nicolae Stanciu, leikmaður Slavia Prag, kemur næstur með sín 10 mörk.

Rúmenía fékk á sig 15 mörk í 10 leikjum í undankeppninni en þar af voru fimm í 5-0 tapi á móti Spáni í leik sem skipti ekki máli fyrir þróun mála í riðlinum í lokaumferð riðlakeppninnar. Ungverjaland er hins vegar í 50. sæti á styrkleikalista en liðið laut í lægra haldi fyrir Wales í úrslitaleik um sæti í lokakeppninni í E-riðli undankeppninnar.

Ungverjar skoruðu átta mörk í jafn mörgum leikjum í undankeppninni en mörkin dreifðust jafnt á milli leikmanna liðsins. Máté Pátkai og Willi, Orban sem er fyrirliði þýska liðsins RB Leipzig, voru markahæstir hjá liðinu í riðlinum með tvö mörk.

Balázs Dzsudzsák, fyrirliði ungverska liðsins, og Ádám Szalai, varafyrirliði liðsins, eru markahæstu leikmennirnir í leikmannahópnum með 21 mark hvor fyrir landsliðið. Þeir eru einu leikmennirnir í hópnum sem hafa skorað meira en fjögur mörk á landsliðsferli sínum.