Pólski bakvörðurinn Maciej Rybus sem á að baki 66 leiki fyrir pólska landsliðið, kemur ekki til greina í pólska landsliðshópinn í aðdraganda HM 2022 eftir að Rybus samdi á dögunum við Spartak Moskvu.
Pólska knattspyrnusambandið sem neitaði að leika gegn Rússum í vor eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst, staðfesti þetta.
„Þjálfari karlaliðs Póllands, Czeslaw Michiewicz, ræddi við Maciej Rybyus á dögunum og tilkynnti leikmanninum að vegna ákvörðunar hans að semja við lið í Rússlandi kæmi hann ekki til greina í næsta verkefni landsliðsins né lokakeppni HM.“
Rybus hefur leikið með Lokomotiv Moskvu undanfarin fimm ár en samdi við nágrannalið þeirra, Spartak Moskvu á dögunum.
Pólverjar hafa tekið á móti 3,5 milljónum flóttamanna frá Úkraínu á undanförnum mánuðum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.