Öskubuskuævintýri Tennessee Titans heldur áfram í kvöld þegar Titans mætir Kansas City Chiefs í leik upp á hvaða lið leikur til úrslita í SuperBowl sem er oft kallaður hinn stóri dansleikur (e. Big Dance) í byrjun febrúar.

Óhætt er að segja að enginn hafi átt von á því að Titans myndi leika til úrslita í Ameríkudeildinni þetta árið og hvað þá eftir að hafa slegið út New England Patriots og Baltimore Ravens á leið sinni í úrslitaleikinn.

Tuttugu ár eru liðin síðan Titans lék til úrslita í eina skiptið í sögu félagsins þar sem félagið horfði á eftir titlinum til St. Louis Rams.

Tilbúinn að fórna getnaðarlimnum

Mike Vrabel, þjálfari Titans er á öðru ári sínu með liðið en hann átti farsælan feril sem leikmaður og vann þrjá meistaratitla sem hluti af liði New England Patriots.

Titans rétt missti af úrslitakeppninni á fyrsta tímabili Vrabel með liðið og var hann spurður út í möguleika Titans á að fara alla leið í ár í hlaðvarpi stuttu fyrir tímabilið.

Þar ákvað þáttastjórnandi að sjá hversu langt Vrabel væri tilbúinn að ganga og spurði hvort að hann myndi fórna getnaðarlimnum gegn því að Titans myndi sigra SuperBowl á þessu tímabili.

Vrabel er skrautlegur á hliðarlínunni
fréttablaðið/getty

Vrabel svaraði hikandi í fyrstu að hann myndi líklegast ganga að því áður en hann ítrekaði að hann myndi hiklaust gera það.

„Ég er búinn að vera giftur í tuttugu ár svo svar mitt er líklegast já. Þið munið kynnast því þegar þið hafið verið giftir í tuttugu ár að það er ekki þörf á honum lengur,“ sagði Vrabel þegar hann var spurður út í hver yrðu viðbrögð eiginkonu hans.

„Ef ég myndi koma til hennar með þetta tilboð myndi hún örugglega bjóðast til að hjálpa til og hvort að það ætti ekki bara að drífa í þessu.“

Lengi af stað

Titans byrjaði tímabilið á sigri gegn Cleveland Browns en fjögur töp í næstu fimm leikjum þýddi að það stefndi allt í enn eitt meðalmennskutímabilið.

Í sjöttu viku tók Vrabel þá ákvörðun að setja Marcus Mariota, leikstjórnanda liðsins á bekkinn og treysti Ryan Tannehill fyrir verkefninu. Tannehill kom frítt til félagsins síðasta sumar eftir að hafa verið leystur undan samningi hjá Dolphins.

Ferill Tannehill var á leiðinni á ruslahaugana þegar Titans bauð honum samning eftir að hafa verið leikstjórnandi Dolphins í sjö ár og aldrei komið liðinu í úrslitakeppnina.

Honum hefur hinsvegar tekist að stýra sókn Titans vel og vann liðið sjö af síðustu tíu leikjum sínum á tímabilinu sem tryggði liðinu þátttökurétt í úrslitakeppninni með níu sigra og sex töp, sama sigurhlutfall og fyrir ári síðan.

Henry rotar þungavigtarkappana

Titans byrjaði úrslitakeppnina á því að heimsækja New England Patriots sem var með eina bestu vörn deildarinnar og hinn goðsagnarkennda Tom Brady í leikstjórnendastöðunni.

Fæstir áttu von á því að Titans myndi geta staðið í Patriots en Derrick Henry, hlaupari Titans, ruddi Patriots úr vegi í 20-13 sigri Titans.

Næsti mótherji var Baltimore Ravens sem var með eitt besta lið deildarinnar, bæði í sókn og vörn á nýafstöðnu tímabili og áttu margir von á því að Titans myndi ekki ná að standast Ravens snúning.

Titans tókst að stýra leikhraðanum og aftur réðu varnarmenn ekkert við hinn magnaða Derrick Henry. Þá hélt stórgóð vörn Titans aftur af sóknarvopnum Ravens og komu í veg fyrir að Lamar Jackson, besti leikmaður deildarinnar á þessu tímabili, kæmist í takt.

Íslandsvinur stendur í vegi Titans

Mahomes er stórvinur Mosfellsbæjar
fréttablaðið/getty

Síðasta hindrun Titans á leiðinni í úrslitaleikinn sjálfan er Kansas City Chiefs, leitt af leikstjórnandanum Patrick Mahomes sem eyddi tíma á Íslandi fyrir tveimur árum með kærustu sinni.

Hún lék með liði Aftureldingar í Inkasso-deild kvenna og kom Mahomes sem var þá óþekktur nýliði í NFL-deildinni og eyddi tíma á Íslandi.

View this post on Instagram

🇮🇸🇮🇸🌋

A post shared by Patrick Mahomes II (@patrickmahomes) on

View this post on Instagram

Blue lagoon 🌋 ✔️

A post shared by Patrick Mahomes II (@patrickmahomes) on

Þetta er annað árið í röð sem Kansas City leikur til úrslita .eftir að hafa dottið úr leik á þessu stigi gegn New England Patriots í fyrra.

Chiefs er með fjölmargar ógnir í sóknarleik sínum, enga stærra en Mahomes sem getur sprengt upp leiki með mögnuðum sendingum eða hlaupaleik sínum.

Þegar liðin mættust fyrr á þessu tímabili hafði Tannehill betur í 35-32 sigri Titans á heimavelli sínum en nú þarf Tannehill og Titans að takast á við háværa stuðningsmenn Chiefs sem munu styðja dyggilega við bakið á sínum mönnum.