Fjallað var um stöðu Tryggva Garðars Jóns­sonar, leik­manns Vals í nýjasta þætti hlað­varps­þáttarins Hand­kastið en sá hefur fengið fá tæki­færi í liði Vals undan­farið. Tryggvi er 19 ára gamall og var hann á fyrstu skrefum síns ferils talinn vera mikið efni. Sér­fræðingar og fyrrum lands­liðs­kempur hafa blandað sér í um­ræðuna um stöðu leik­mannsins.

Vals­menn eru í eld­línunni í nokkrum keppnum þessa dagana, meðal annars í riðla­keppni Evrópu­deildarinnar en þrátt fyrir mikið álag á leik­manna­hópnum eru mínúturnar, sem Tryggvi fær innan vallar, sára­fáar eða færri en menn bjuggust við.

„Aðilar honum ná­komnir eru alls ekki sáttir með stöðu mála og hvernig með­höndlunin á honum er," sagði hand­bolta­sér­fræðingurinn Theo­dór Ingi Pálma­son í Hand­kastinu. „Ég sá þennan strák fyrst á Hafnar­fjarðar­mótinu árið 2019, þá var hann 16 ára. Hann er tröll, lúðrar boltanum. Á þeim tíma spurði ég sjálfan mig hvað við værum með í höndunum hvað hann varðar.“

Tryggvi Garðar Jónsson, leikmaður Vals
Mynd: EHF

Síðan þá hafi meiðsli sett strik í reikninginn hjá leikmanninum.

„Ég spyr mig bara á hvaða stað er þessi strákur núna? Valur á þetta rosalega leikjaprógram fram undan, Róbert Hostert er meiddur og voru með leikinn á móti Selfossi í teskeið. Af hverju fær hann ekki mínútur?“

Ekki alltaf samasem merki á milli

Í umræðum á samfélagsmiðlinum við deilingu Vísis á Twitter á fétt um stöðu Tryggva má sjá fyrrum landsliðshetjur og handboltasérfræðinga tjá sig um stöðuna hjá Tryggva og Val.

Logi Geirsson, sem á sínum tíma í atvinnumennsku varð Evrópumeistari og vann til verðlauna á stórmótum með íslenska landsliðinu, segir gæðin alltaf fara í gegn.

„Ef hann væri betri en Maggi (Magnús Óli Magnússon) og Robbi (Róbert Hostert) myndi hann starta! 19 ára í besta liði landsins. Með meiðslasögu. Með menn í landsliðsklassa fyrir framan sig. Hann er að þroskast og það er verið að byggja hann upp," skrifar Logi í færslu á Twitter og spyr hvort Tryggvi henti flæðinu í sóknarleik Vals.

Önnur landsliðskempa, Sigfús Sigurðsson blandar sér einnig í umræðuna með fyrrum liðsfélaga sínum Loga Geirssyni. Hann spyr hversu margir 16-18 ára af efnilegustu leikmönnunum verði nægilega góðir.

„Það er ekki alltaf samasem merki á milli þess að vera efnilegur og ná að taka skrefið í að verða góður.“

Íþróttafréttamaðurinn margreyndi Guðjón Guðmundsson, sem er einnig faðir Snorra Steins Guðjónssonar, þjálfara Valsmanna segir umræðuna kjánalega.

„Valur á eftir að spila 49 leiki. Allt hefur sinn tíma. Þetta er meira svona píp út í loftið. Held að teymið hjá Val sé að vanda sig. En öll gagnrýni er af hinu góða.“

Innkoman ekki upp á marga fiska

Þá beinist umræðan að nýafstöðnum leik Valsmanna þar sem Tryggvi fékk mínútur undir lok leiks og að mati Loga gerði hann sig sekan um fáránlegt brot. Logi segir Tryggva hafa allt til að komast í fremstu röð, hann búi yfir frábærum eiginleikum.

„Fær þarna t.d. síðustu 5 mín og gerir sig sekan um fáránlegt brot. Ég sem þjálfari þarna myndi bara taka samtalið. Svona brot geta kostað lið sigurinn, á ekki að sjást.“

Sigfús tekur í sama streng og segir innkomuna ekki upp á marga fiska, hann er ósammála sérfræðingum Handkastins um að ábyrgðin sé þjálfarana.

„Hún liggur alltaf hjá leikmanninum að sýna að hann sé nægilega góður til að fá trausið.“

Getur ekki setið á sér

Þá blanda Arnar Daði Arnarsson og Theodór Ingi, sérfræðingar Handkastsins sér í umræðuna á Twitter.

„Djöfull get ég ekki setið á mér þegar að ég les þessa þvælu," skrifar Arnar Daði sem svar til Loga, Sigfúsar og Guðjóns.

Hann spyr hvort það sé ekki á ábyrgð þjálfaranna að 19 ára leikmaður liðsins sé ekki að spila handbolta? „Það var enginn að ætlast til að Tryggvi væri að spila mikið í Olís-deildinni. Stærsta spurningin var af hverju er hann þá ekkiað spila með Val U.“

Theódor tekur undir svar Arnars Daða og segir gömlu fyrirmynd sína „Fúsa fisksala“ á villigötum.