Naby Keita ferðaðist ekki með liði Liverpool til Þýskalands í dag og þarf hann því að fylgjast með leik Bayern og Liverpool úr sófanum.

Keita gat ekki tekið þátt í æfingu Liverpool fyrr í dag vegna meiðsla og var því tekin ákvörðun um að hann yrði eftir í Bítlaborginni. Hann byrjaði fyrri leik liðanna en var tekinn af velli í markalausu jafntefli.

Það voru hins vegar jákvæð tíðindi fyrir Jurgen Klopp, knattspyrnustjóra liðsins að James Milner og Trent Alexander-Arnold tóku fullan þátt í æfingunni í dag og ættu því að vera leikfærir.

Milner var ekki í leikmannahóp Liverpool um helgina vegna meiðsla og Alexander-Arnold fór meiddur af velli stuttu fyrir leikslok en honum hefur tekist að hrista það af sér.