Karlalið Keflavíkur í körfubolta mun njóta krafta tveggja lykilleikmanna sinna á síðustu leiktíð áfram á næsta keppnistímabili.

Það eru litháíski miðherjinn Dominykas Milka og enski framherjinn Dea­ne Williams en þeir léku báðir afar vel með Keflavíkurliðinu á nýliðinni leiktíð sem var hætt áður en hægt var að klára hana á dögunum vegna kórónaveirufaraldursins.

Milka var stigahæsti leikmaður Keflavíkur á leiktíðinni með 20,9 stig að meðaltali í leik og þá tók hann sömuleiðis flest fráköst eða 12,1 frá­kast að meðaltali í leikjum Suðurnesjaliðsins.

Williams skoraði hins vegar 15,6 stig að meðaltali í leikjum Keflavíkur, tók 9,9 frá­köst og gaf 1,9 stoðsend­ing­ar. Kefla­vík var í öðru sæti deildarkeppninnar þegar tíma­bil­inu var af­lýst en liðið var tveim­ur stig­um á efitr Stjörn­unni þegar einni umferð var ólokið.