Keflavík lagði Hauka að velli 78-70 eftir framlengdan leik í níundu umferð Domino's-deildar kvenna í körfubolta í TM-höllinni suður með sjó í kvöld.

Daniela Wallen Morillo og Katla Rún Garðarsdóttir voru stigahæstar hjá Keflavík með 22 stig hvort en Emilía Ósk Gunnarsdóttir kom næst með 20 stig. Þetta er fjórði sigurleikur Keflavíkurliðsins í röð.

Randi Keonsha Brown skoraði mest fyrir Hauka eða 26 stig talsins og þar á eftir kom Þóra Kristín Jónsdóttir með 15 stig.

Kiana Johnson var atkvæðamest hjá Val með 28 stig þegar liðið vann sannfærandi 93-80 á móti Snæfelli í Stykkishólmi. Dagbjört Samúelsdóttir bætti 16 stigum við í sarpinn og Hallveig Jónsdóttir 14 stigum.

Veera Annika Pirttinen og Chandler Smith drógu vagninn í sóknarleik Snæfells en Veera skoraði 19 stig og Chandler 15 stig.

KR komst aftur á sigurbraut

KR-ingar unnu öruggan 90-60 sigur þegar Vesturbæjarliðið fékk Breiðablik í heimsókn í DHL-höllina. Hildur Björg Kjartansdóttir og Danielle Victoria Rodriguez voru í broddi fylkingar hjá KR með 21 stig hvor og Sanja Orazovic setti niður 17 stig.

Danni L. Williams nýr leikmaður Breiðabliks sem gekk til liðs við félagið í vikunni var stigahæst hjá Blikum með 14 stig og Þórdís Jóna Kristjánsdóttir fylgdi fast á hæla hennar með 12 stig.

Skallagrímur gerði svo góða ferð til Grindavíkur þar sem liðið bar sigur úr býtum 73-63. Jordan Airess Reynolds fór fyrir Skallagrímsliðinu en hún skoraði 22 stig fyrir liðið. Keira Breeanne Robinson var lang atkvæðamest hjá Grindavík með 29 stig.

Valur er taplaust á toppi deildarinnar með 18 stig, KR í öðru sæti með 14 stig og Skallagrímur og Keflavík koma þar á eftir með 12 stig hvort lið.

Haukar hafa átta stig í fimmta sæti, Snæfell og Breiðablik eru í sætunum þar fyrir neðan með fjögur stig og Grindavík vermir botnsætið án stiga.