Keflavík komst aftur upp að hlið KR og Snæfells í Dominos-deild kvenna í kvöld með sex stiga sigri 89-83 á Skallagrími í Borgarnesi en fresta þurfti leik liðanna á dögunum vegna óveðurs.

Var þetta síðasti leikurinn í tíundu umferð og er Keflavík komið með sextán stig á meðan Borgnesingar eru áfram í sjötta sæti með sex stig.

Fresta þurfti leik liðanna vegna óveðurs á fimmtudaginn og fengu liðin því nægan tíma til að undirbúa leik kvöldsins.

Borgnesingar byrjuðu leikinn vel og voru með frumkvæðið lengst af í leiknum. Náðu þær um tíma fjórtán stiga forskoti í fyrri hálfleik en Keflvíkingar gáfust ekki upp.

Gestirnir sneru leiknum sér í hag í lokaleikhlutanum þar sem þær héldu heimakonum í fimmtán stigum og náðu að sigla fram úr.