Á nýjasta fundi stjórnar KSÍ var tekin fyrir áskorun frá Keflavík að KSÍ myndi beita sér fyrir því að tekið yrði upp félagskiptabótakerfi fyrir knattspyrnukonur.

Með því myndi Keflavík fá greiddar uppeldisbætur ef Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður Wolfsburg, yrði keypt frá þýska félaginu. Íslenska landsliðskonan er samningsbundin Wolfsburg til 2025 eftir að hafa framlengt samning sinn fyrr á þessu ári.

Í áskorununinni lýsir Keflavík yfir stolti af afrekum Sveindísar.

„Knattspyrnudeild Keflavíkur er ákaflega stolt af afrekskonu sinni, Sveindísi Jane Jónsdóttur sem alin er upp í félaginu. Sveindís er sönn fyrirmynd og glæsilegur fulltrúi félagsins. Knattspyrnudeild Keflavíkur skorar á stjórn KSÍ að beita sér fyrir því að tekið verði upp félagaskiptabótakerfi fyrir knattspyrnukonur á vettvangi FIFA.“