Írski harðhausinn Roy Keane, fyrrum leikmaður Manchester United og nú sérfræðingur ITV í tengslum við HM í Katar segir landslið Brasilíu sýna andstæðingum sínum á mótinu vanvirðingu með dönsum sínum eftir mörk liðsins og sigra.

Athæfi liðsins minni einna helst á raunveruleikaþáttinn Strictly Come Dancing en leikmenn Brasilíu hafa lagt metnað í fögn sín. Brasilía tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum með öruggum sigri á Suður-Kóreu í gær og á meðan að leiknum stóð lét Keane gamminn geisa á ITV

,,Ég trúi ekki því sem ég er að sjá hérna, þetta er eins og Strictly Come Dancing," mátti meðal annars heyra hann segja.

Þegar að þriðja mark leiksins leit dagsins ljós blandaði Tite, landsliðsþjálfari Brasilíu sér í fagnaðarlætin.

,,Ég er ekki hrifinn af þessu," sagði Keane í kjölfarið. ,,Fólk segir að þetta sé hefð hjá Brössunum en mér finnst þetta vera vanvirðing við andstæðinginn.

Þetta eru fjögur mörk og þeir stíga dans í hvert einasta skipti. Mér er sama ef þetta er gert eftir fyrsta marki en svo bætist við annað og svo blandar þjálfarinn sér í þetta.

Ég er ekki ánægður með þetta, þetta er alls ekki gott."