Breel Embolo, leikmaður svissneska landsliðsins í knattspyrnu kom Sviss yfir gegn Kamerún í riðlakeppni HM fyrr í dag. Þótt að um mikilvægt mark sé að ræða kaus Embolo að fagna því ekki. Átæðan fyrir því er einföld, Kamerún er upprunaland hans.

Svisslendingar opnuðu vörn Kamerún upp á gátt í aðdraganda marksins sem kom snemma í síðari hálfleik, nánar tiltekið á 48. mínútu.

Markaskorarinn Breel Embolo er leikmaður franska úrvalsdeildarliðsins Monaco og spilar með svissneska landsliðinu en er fæddur í Yaoundé í Kamerún árið 1997.

Þegar að hann var fimm ára fluttist Embolo búferlum með móður sinni til Frakklands og í kjölfarið fluttu þau til Sviss þar sem stjúpfaðir Embolo bjó.