Danski hand­knatt­leiks­maðurinn Rasmus Boy­sen segir að kaup danska liðsins Aal­borg Hånd­bold á lands­liðs­manninum Aroni Pálmars­syni séu ein þau allra bestu sem danskt hand­bolta­fé­lag hefur gert.

Boy­sen er einn helsti hand­bolta­sér­fræðingur Dan­merkur og er mjög virkur á Twitter. Í færslu í morgun birtir hann mynd af Aroni Pálmars­syni með treyju Ála­borgar­liðsins og hrósar fé­laginu mjög fyrir að kló­festa Aron.

Aron er af mörgum talinn einn besti hand­bolta­maður heims og er auk þess á besta aldri. Hann varð þrí­tugur á síðasta ári og ef hann helst heill gætu hans bestu ár verið eftir. Hann hefur verið í her­búðum Barcelona frá árinu 2017 en lék þar á undan með Veszprém í Ung­verja­landi og Kiel í Þýska­landi.

Henry Birgir Gunnars­son, í­þrótta­frétta­maður Sýnar, birtir mynd af Ólafi Stefáns­syni í treyju AG Köben­havn undir færslunni og segir að ekki megi gleyma honum. Rasmus tekur undir það að Ólafur hafi verið frá­bær í Dan­mörku en hann hafi verið 38 ára þegar hann kom og ekki á há­tindi ferilsins. „Hann spilaði bara í eitt tíma­bil. Aron er á há­tindi síns ferils. Það er ekki hægt að bera þetta saman.“

Ála­borg ætlar sér stóra hluti í hand­boltanum á næstu misserum en liðið hefur einnig samið við Mikkel Han­sen sem mun ganga í raðir liðsins sumarið 2022.