Son Heung-Min var hetja helgarinnar þegar hann skoraði sigurmark Tottenham gegn Aston Villa þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Son skoraði eftir skelfileg mistök Björn Engels í vörn Aston Villa og kom Kóreumaðurinn boltanum fram hjá Pepe Reina. Örskömmu síðar var leikurinn flautaður af. Þetta var áttunda mark Son í deildinni en hann hefur skorað 51 mark og gefið 26 stoðsendingar síðan hann kom til Tottenham fyrir fimm árum. Enginn frá Asíu hefur skorað meira en hann í enska boltanum.

Son kom upp í gegnum akademíuna í FC Seoul en faðir hans, Son Woong-jung, þótti liðtækur fótboltamaður og spilaði einn landsleik með Suður Kóreu. Þegar hann var aðeins 16 ára gekk hann í raðir Hamburger SV í Þýskalandi. Þegar hann mátti loks skrifa undir atvinnumannasamning gerði hann það með bros á vör. Hann var fljótur að skapa sér nafn í búndeslígunni og spáðu fjölmiðlar að hann gæti fetað í fótspor Cha Bum-kun, goðsagnarinnar frá Kóreu ef hann héldi áfram á sömu braut.

Bayer Leverkusen tilkynnti 2013 að það hefði keypt Son á 10 milljónir evra og varð hann þar með dýrasti leikmaður félagsins. Honum tókst að enda í tveggja stafa tölu þegar kemur að mörkum. Síðasta tímabilið sitt með Leverkusen skoraði hann 17 mörk og Tottenham bankaði á dyrnar. Splæsti 22 milljónum punda í guttann árið 2015 og varð hann þar með dýrasti leikmaður Asíu frá upphafi.

Það gekk reyndar ekkert ofboðslega vel að aðlagast enska boltanum og skoraði Son aðeins fjögur mörk í 28 leikjum fyrsta tímabilið. Hann byrjaði aðeins 13 leiki og vildi fara. Suðaði víst mikið í Mauricio Pochettino stjóra liðsins að fá að yfirgefa Lundúnaliðið og fara aftur til Þýskalands. En hann ákvað að berjast fyrir sæti sínu og tók stakkaskiptum tímabilið eftir.

Fyrir þetta tímabil var hann kominn með 41 mark fyrir Tottenham og var af flestum talinn einn mikilvægasti leikmaður liðsins. Hann hefur þó ekki beint verið í fréttum bara fyrir markanef sitt og gæði, bros og almenna kurteisi. Hann náði þeim vafasama heiðri að vera rekinn af velli þrisvar sinnum á árinu 2019. Það er jafn oft og Eric Cantona tókst að láta reka sig útaf á sínum ferli í enska boltanum. Samt er ekki eins og Son sé grófur. Séu rauðu spjöldin skoðuð kom það fyrsta gegn Bournemouth þar sem Son brást við grófri tæklingu. Það seinna kom gegn André Gomez leikmanni Everton. Flestir þekkja það spjald og fundu margir til með Son þegar hann gekk grátandi af velli. Það þriðja var svo gegn Chelsea þegar hann var sakaður um að sparka í Antonio Rudiger. Stuðningsmenn Tottenham og aðrir áhugamenn muna samt meira eftir sprettum hans og mörkum. Hann á væntanlega mark tímabilsins eftir ótrúlegan sprett gegn Burnley og það munu fleiri rifja upp gæði hans en grófleika.

Son er stærsta stjarna landsins. Andlit kóreska fótboltans út á við. Hálfgerður Ronaldo þeirra og eftir viðureignir Tottenham eru sérþættir um Son sýndir þar sem allar hreyfingar hans eru krufðar til mergjar. Ungir krakkar í Kóreu fara svo út á götu og reyna að herma eftir honum. Hann lifir líka eins og stjarna. Er með módelum og leikkonum frá heimalandinu en ætlar þó ekki að gifta sig fyrr en skórnir eru farnir upp í hilluna. Son hefur verið í samböndum með kóresku poppstjörnunum Bang Min-ah og Yoo So-young en er nú maður einsamall.

Ástin í lífi hans eru því bílarnir hans því bílasafn hans telur ansi fallega bíla og er metið á mörg hundruð milljónir samkvæmt The Sun. Þar má finna Ferrari LaFerrari en aðeins 499 slíkir bílar voru gerðir. Það gat ekki hver sem er keypt sér slíkan bíl og þurfti Son ásamt hinum kaupendunum að uppfylla ströng skilyrði. Hann þurfti reyndar að sprauta sinn bíl svartan því Tottenham bannar honum að eiga rauða bíla vegna rígsins við Arsenal. Þá er að finna í skúrnum hans Bentley, Range Rover og Maserati sportjeppa svo nokkrir séu nefndir.