Katrín Tanja Davíðsdóttir keppti í undankeppni heimsleikanna í CrossFit í gær en samkvæmt óstaðfestum niðurstöðum Morning chalk up nær Katrín ekki inn á heimsleikana. Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir keppti einnig á mótinu og landar tólfta sæti samkvæmt þessum niðurstöðum.
Niðurstöður gætu enn breyst en sem stendur er Katrín í þriðja sæti og aðeins efstu tvö sætin komast áfram. Aðeins munar fjórum stigum milli hennar og Elena Carratala Sanahuja frá Spáni sem situr nú í öðru sæti. Þær eru í áðurnefndri röð með 336 stig og 340 stig. Í fyrsta sæti er hin bandaríska Arielle Loewen með 380 stig.
Verði þessar niðurstöður staðfestar án breytinga er það í fyrsta sinn frá árinu 2014 sem Katrín kemst ekki áfram á heimsleikana. Hún hlaut nafnbótina Hraustasta kona heims árið 2015 og 2016.
Keppt var í fjórum æfingum á mótinu. Katrín landaði fyrsta sæti í æfingu númer tvö, fjórða sæti í fjórðu æfingunni, sjöunda sætið í þeirri þriðju og áttunda sæti í fyrstu. Nánari upplýsingar um æfingarnar verða birtar síðar.