Aflraunakonan Katrín Tanja Davíðsdóttir mun koma fram í Body Issue, sérstöku árlegu tímariti ESPN sem leggur áherslu á líkama íþróttafólks í fremstu röð.

Tímaritið verður gefið út í tíunda sinn í ár en forsíðufyrirsætan á fyrsta blaðinu var Serena Williams. Katrín Tanja verður fyrsti Íslendingurinn sem kemur fram í tímaritinu

Um er að ræða árlegt tímarit þar sem fremsta íþróttafólk heimsins kemur fram hálf nakið (e. semi-nude) og er búið að staðfesta 21 manns sem koma fram í tímaritinu.

Í fyrra mátti sjá líkama meðal annars Megan Rapinoe, Zlatan Ibrahimovic og Greg Norman. Þá eru tvö ár liðin síðan hjónin Julie og Zach Ertz sátu fyrir saman í blaðinu

Með Katrínu í ár verða meðal annars Brooks Koepka, einn besti kylfingur heims, Amanda Nunes, eina fremstu bardagakonu heims, Chris Paul, leikstjórnanda OKC Thunder í NBA og Michael Thomas, útherja New Orleans Saints í NFL.

Katrín Tanja sem hefur tvívegis hlotið titilinn hraustasta kona heims eftir sigur á heimsleikunum í CrossFit lenti í 4. sæti í ár en vann um helgina CrossFit-mót í Danmörku þar sem Katrín og Annie Mist Þórisdóttir voru saman í liði.