CrossFit-konan Katrín Tanja Davíðsdóttir mun í dag vera einn fimm keppenda sem hefja keppni í Heimsleikunum sem fram fara við óvenjulegar aðstæður í Kaliforníu í Bandaríkjunum um helgina. Katrín Tanja var eini íslenski keppandinn sem komst í gegnum niðurskurð sem haldinn var fyrr á árinu en Björgvin Karl Guðmundsson og Sara Sigmundsdóttir komust ekki í lokaúrslitin.

Keppt er í eins konar búbblu í Aromas í Kaliforníuríki en engir áhorfendur verða á keppnisstað á leikunum að þessu sinni. Keppendur þurfa að gæta að sóttvörnum í hvívetna og mega ekki yfirgefa keppnissvæðið þá daga sem leikarnir fara fram.

Hin ástralska Tiu-Clair Toomey þykir sigurstranglegust á leikunum í ár en hún hefur unnið keppnina síðustu þrjú ár. Katrín Tanja vann leikana þar á undan en hún hefur tvisvar orðið hlutskörpust í keppninni, árin 2015 og 2016. Á þeim leikum varð Tiu-Clair Toomey í öðru sæti eftir harða keppni við Katrínu Tönju.

Annie Sakamoto, sérfræðingur um CrossFit, segir Toomey vera líklegasta til þess að bera sigur úr býtum á leikunum. Sakomato segir hina keppendurna fjóra vera svipaða að styrkleika en hún telur Katrínu Tönju hins vegar líklegasta til þess að veita Ástralanum öfluga samkeppni um sigur í keppninni.

Sakomato segir Katrínu Tönju best til þess fallna að höndla þá pressu sem verður þegar á hólminn er komið á leikunum. Katrín Tanja hafi sýnt það í undankeppninni fyrir leikana að hún sé andlega sterk. Katrín Tanja var þar í erfiðri stöðu í 22. sæti eftir tveir greinar. Hún snéri hins vegar blaðinu við og tókst að tryggja sér farseðilinn á sína áttundu Heimsleika. Auk þess að hafa tvisvar staðið uppi sem sigurvegari hefur Katrín Tanja hafnaði í þriðja sæti árið 2018 og fjórða sæti í fyrra. –