Aflraunakonan Katrín Tanja Davíðsdóttir segir að það sé draumur að rætast hjá henni að vera í nýjasta tímariti Body Issue sem ESPN gefur út í næsta mánuði.

Eins og greint var frá í gær verður Katrín Tanja fyrsti Íslendingurinn sem kemur fram í tímaritinu og fyrsta íþróttamanneskjan úr CrossFit sem birtist í blaðinu.

Katrín Tanja sendi frá sér stutta yfirlýsingu áInstagram síðu sinni í gær sem lesa má hér fyrir neðan þar sem hún ræðir þetta tækifæri.

„Þarna er bókstaflega draumur að rætast hjá mér. Allt íþróttafólkið sem kemur fram í Body Issue tímariti ESPN er í fremstu röð í sinni íþrótt. Hver einasti líkami sem er í tímaritinu er mismunandi en fallegur og sýnir hvað hver og einn getur gert,“ segir Katrín Tanja og heldur áfram:

„Ég elska að þetta blað sýni og fagni mismunandi líkamsbyggingu fólks og fegurðina hvað hægt er að gera. Við höfum öll lagt mikið á okkur til að komast á þennan stað. Ég get ekki beðið eftir því að deila þessu með ykkur. xxx“

Þá segir hún að þetta sé eitt það magnaðasta sem hún hafi tekið þátt í þrátt fyrir að hún hafi fundið fyrir taugaveiklun.

Um er að ræða árlegt tímarit frá ESPN þar sem íþróttafólk kemur fram hálf nakið (e. semi-nude) þar sem lögð er áhersla á vel þjálfaða líkama íþróttafólks í fremstu röð.

Þetta er ellefta árið sem blaðið er gefið út og verður Katrín Tanja meðal annars með kylfingnum Brooks Koepka, UFC bardagakonunni Amöndu Nunes og sóknarlínu Philadelphia Eagles þetta árið.

Katrín Tanja segir þetta vera draum að rætast
Mynd/Instagram-síða Katrínar Tönju
Mynd/Instagram-síða Katrínar Tönju