KA/Þór varð í dag Íslandsmeistari í handbolta kvenna í fyrsta skipti í sögu félagsins. KA/Þór lagði Val að velli, 25-23, í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.

KA/Þór vann þar af leiðandi einvígið 2-0 og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn. Norðanliðið varð meistari meistaranna í upphafi keppnistímabilsins og varð deildarmeistari fyrr á þessu tímabili.

Aldís Ásta Heimisdóttir og Martha Hermannsdóttir voru markahæstar hjá KA/Þór í leiknum í dag með sex mörk hvor. Rut Arnfjörð Jónsdóttir kom næst með fimm mörk.

Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir bættu svo þremur mörkum við fyrir KA/Þór. Thea Imani Sturludóttir var atkvæðamest hjá Val með níu mörk.

Andri Snær Stefánsson vann þessa þrjá titla á sínu fyrsta ári við stjórnvölinn hjá KA/Þór-liðinu.