Eftir það sem telja má afar gott Heims­meistara­móti í knatt­spyrnu hingað til í Katar, horfa yfir­völd í ríkinu nú til þess að fá um­boð til að halda Ólympíu­leikana 2036. Það er The Guar­dian sem greinir frá þessum vendingum.

Færi svo að Katar fengi um­boð til þess að halda Ólympíu­leikana myndi svipað snið verða á þeim og HM, það er að segja leikarnir færu fram í kringum nóvember en ekki yfir sumar­tímann í Evrópu.

For­dæmi er fyrir slíku í sögu Ólympíu­leikanna. Árið 1964, þegar leikarnir fóru fram í Tókýó, hófust þeir til að mynda þann 10. októ­ber.

Stjórn­völd í Katar hafa verið gagn­rýnd harð­lega, rétti­lega, bæði í að­draganda Heims­meistara­mótsins í knatt­spyrnu sem og á meðan mótinu stendur. Þá aðal­lega fyrir slæma stöðu al­mennra mann­réttinda í landinu þar sem meðal annars hin­segin­leiki er bannaður sam­kvæmt lögum. Þá hefur slæmur að­búnaður farand­verka­manna verið harð­lega gagn­rýndur.

The Guar­dian greinir nú frá því að stjórn­völd í Katar séu himin­lifandi hvernig til hefur tekist hingað til á HM í knatt­spyrnu og það sé grund­völlur þess að ríkið horfi nú til Ólympíu­leikanna 2036.

Katar hefur áður gert þrjár til­raunir til þess að fá um­boð til að halda Ólympíu­leikana. Engin þeirra hefur borið árangur hingað til. Á þessum tíma­punkti er talið að Katar muni sækja um að halda leikana eitt og sér en ekki er loku fyrir það skotið að ríkið sæki um í banda­lagi nokkurra ríkja í Mið-Austur­löndunum.