Nokkrir kvenkyns knattspyrnustuðningsmenn á Heimsmeistaramótinu í Katar upplifa sig mun öruggari í landinu en þær héldu fyrirfram. Áfengissala er bönnuð víða í landinu, til að mynda á leikvöngunum sem notaðir eru á mótinu. Reuters fjallar um þetta.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur verið gagnrýnt fyrir að leyfa Katar að hýsa mótið. Mannréttindi eru fótum troðin í landinu, þar á meðal réttindi hinsegin fólks, og lést fjöldi verkamanna við bygginu leikvanga þar í undirbúningi mótsins.

Það virðist þó sem svo að einhverjir stuðningsmenn séu sáttir með veruna í Katar það sem af er. „Ég var að búast við mjög hættulegum stað fyrir konur. Ég hélt ekki að þetta yrði öruggt en eftir á að hyggja hefur mér liðið eins og ég sé mjög örugg,“ segir Ellie Molloson, stuðningskona enska landsliðsins.

Molloson hefur einmitt barist fyrir kvenréttindum í knattspyrnuheiminum. Faðir hennar vildi koma með henni til Katar þar sem hann var hrædur um öryggi hennar en það reyndist óþarft.

Áfengi er ekki selt á völlunum í Katar og hin 19 ára gamla Molloson telur það hjálpa. Áfengi er aðeins selt á sumum hótelum en er ekki mjög sýnilegt út á við.

„Það spilar inn í hvað samfélagið er íhaldssamt. Áfengi ýtir undir ofbeldisfulla heðgun.“

Ariana Gold, 21 árs stuningskona Argentínu, tók í sama streng. „Þetta er mjög góður staður fyrir konur. Þegar ég var heima hélt ég að þetta land væri bara fyrir karlmenn. Mér líður hins vegar mjög vel hérna og hér er gott að vera.“