Vilhjálmur Haraldsson, þjálfari kvennaliðs Augnabliks í knattspyrnu, setti áhugaverða færslu inn á twitter-síðu sína í dag. Þar bendir hann á að dóttir hans, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sem leikur fyrir Breiðablik, hafi sett sér markmið fyrir einu ári síðan.

Þar segir Vilhjálmur að Karólína Lea hafi fyrir einu ári síðan sett sér það markmið að vera í byrjunarliðinu í leik A-landsliðinu og opinberaði það í námi sínu í íþróttasálfræði í Flensborgarskólanum.

Karólína var í byrjunarliði íslenska liðsins þegar liðið gjörsigraði Lettland í undankeppni EM 2022 og náði hún þar með markmiði sínu á réttum tíma. Hún skoraði eitt marka Íslands í þeim leik. Þá lék hún afar vel þegar Ísland gerði jafntefli við Svíþjóð í leiknum þar á eftir.

Þessi 19 ára sóknartengiliður sem leikið hefur með Breiðabliki síðan árið 2018 og varð Íslans- og bikarmeistari með liðinu árið 2018 hefur leikið þrjá leiki fyrir íslenska landsliðið. Hún vakti athygli sænskra fjölmiðla fyrir frammistöðu sína í leiknum á móti Svíum.

Hér að neðan má sjá twitter-færslu Vilhjálms: